Njarðvík dæmt til að greiða uppeldisbætur fyrir Kristinn!Prenta

Körfubolti

Körfuknattleiksdeild UMFN lýsir gríðarlegum vonbrigðum með niðurstöðu FIBA í máli Kristins Pálssonar. KKD UMFN hefur verið dæmd til að greiða ítalska körfuknattleikssambandinu 9600 evrur í uppeldisbætur fyrir Kristinn Pálsson fyrir veru sína hjá Stella Azzura á Ítalíu. Niðurstaða í málinu lá fyrir seint í gærdag (5. febrúar).

Ein af niðurstöðum dómsins sem telur níu blaðsíður er sú að leikheimild Kristins hafi orðið til hjá Stella Azzura þegar hann varð 18 ára og því sé ítalski klúbburinn sannanlega uppeldisklúbbur leikmannsins. Körfuknattleiksdeild UMFN mun auðvitað mótmæla þeirri fásinnu harðlega enda Kristinn leikmaður Ungmennafélags Njarðvíkur frá rúmlega 6 ára aldri til þess tíma er hann fór til Ítalíu þá liðlega 15 ára gamall. Lítið sem ekkert tillit er tekið til þess í dómi FIBA.


Njarðvík er dæmt til uppeldisbóta í þremur liðum;

  • Vegna „special transfer“ frá Njarðvík til Ítalíu þar sem Kristinn var ekki lögráða.
  • Vegna skólagöngu leikmannsins á Ítalíu.
  • Vegna uppihalds leikmannsins á Ítalíu.

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur mun ekki áfrýja dómnum þar sem málið tefst enn frekar fyrir vikið. Er það skoðun KKD UMFN að nú sé löngu orðið tímabært að hugað sé að hagsmunum leikmannsins og hann fái um frjálst höfuð strokið og geti haldið áfram sínum ferli. Allt afl er nú sett í að gera upp við ítalska körfuknattleikssambandið svo Kristinn öðlist leikheimild fyrir næstu umferð Domino´s-deildar karla.

Vitanlega mun þessi ákvörðun höggva skörð í fjárhagsáætlun deildarinnar en hagsmunir leikmannsins eru settir í öndvegi. Þeir sem til þekkja vita hve þungur þessi dómur er fyrir starf deildarinnar enda langt liðið á tímabilið og viðlíka útgjöld mikið áfall. Stjórn deildarinnar rær nú öllum árum að því útvega fjármagn til að leysa málið.

Uppkomin staða er til háborinnar skammar fyrir FIBA enda nokkuð einsýnt að víða á meginlandi Evrópu er verið að egna leikmannagildrur og þessum aðferðum er verið að beita gegn grunlausum ungmennum, fjölskyldum þeirra og félögum. Það er nokkuð ljóst að það fer enginn leikmaður í viðlíka „unglingaprógramm“ nema hafa fengið viðeigandi þjálfun og hafa viðeigandi getu. Einhverstaðar er hún sprottin.

Allt kapp er nú lagt á það að Kristinn komist í grænt fyrir fimmtudag en ef það hefst ekki þá eigi síðar en strax í þarnæstu umferð. Allir sem komið hafa að málinu eiga þakkir skildar fyrir sitt framlag, einkum og sér í lagi Kristinn Pálsson fyrir mikið æðruleysi gagnvart stöðunni, aðrir leikmenn Njarðvíkurliðsins og þjálfarateymið. Þá ber einnig að þakka Körfuknattleikssambandi Íslands fyrir veitt liðsinni í málinu.


Fyrir hönd Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur,

Friðrik Ragnarsson
Formaður