Njarðvík á toppinn!Prenta

Körfubolti

Njarðvíkurkonur komust í dag á topp 1. deildar kvenna með öflugum 66-56 sigri á Tindastól í uppgjöri toppliða deildarinnar. Lára Ösp Ásgeirsdóttir leiddi Njarðvíkurliðið í dag með 22 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Helena Rafnsdóttir gerði 3 stig en var óþreytandi á varnarendanum með 7 fráköst, 4 stolna bolta og 4 varin skot og heilt yfir glimrandi leik. Þá hlóð Vilborg Jónsdóttir í myndarlega tvennu með 19 stig og 10 stoðsendingar og vantaði aðeins 2 fráköst upp á þrennuna!

Ljónynjurnar voru hvergi feimnar í fyrsta leikhluta við að senda þriggja stiga flaugarnar á loft en fæstar þeirra rötuðu rétta leið, 2-12 í þristum en mun betur gekk að finna Láru Ösp í námunda við körfuna sem Tindastóll átti bágt með að stoppa og Njarðvík leiddi 18-13 að loknum fyrstu tíu mínútunum og Lára komin með 9 stig.

Gestirnir úr Skagafirði opnuðu annan leikhluta með 10-0 dembu og komust í 18-23, áhlaupið reyndist 13-0 og staðan 18-26 þegar Njarðvík tók leikhlé með 5 mínútur eftir af fyrri hálfleik og þá ekki búnar að skora stig fyrstu fimm mínútur annars leikhluta.

Njarðvík tókst að klóra sig nærri undir lok fyrri hálfleiks en staðan í hálfleik var 29-31 þar sem Erna Freydís var með 10 stig og Lára Ösp einnig með 10. Njarðvíkurliðið skaut 21 þriggja stiga skoti í fyrri hálfleik, aðeins þrír fóru niður og nýtingin því aðeins 14%.

Jóhanna Lilja Pálsdóttir fékk sína fjórðu villu snemma í þriðja leikhluta en Njarðvík komst í 35-33 eftir tæplega fimm mínútna leik. Tindastóll jafnaði leikinn 40-40 með þrist og þannig stóðu leikar eftir þriðja leikhluta. Í fjórða leikhluta var Njarðvík við stýrið en Tindastóll aldrei langt undan, Jóhanna með fjórar villurnar var mætt þrautgóð á raunastund með sjaldgæfan Njarðvíkurþrist og gerði út um leikinn 54-56 þegar tæp mínúta lifði leiks. Tindastóll komst ekki nær og lokatölur 66-56 í toppslagnum og bæði lið því nú með 12 stig á toppi 1. deildar.

Tölfræði leiksins
Myndasafn