Níu ÍslandsmeistaratitlarPrenta

Fréttir

Íslandsmeistaramót KRAFT í klassískum kraftlyftingum unglinga og öldunga fór fram í Njarðvík síðastliðna helgi. Öllu var til tjaldað í Ljónagryfjunni þegar gamli góði timbur lyftingarpallurinn var dreginn fram á parketið.  40 keppendur á öllum aldri tóku þátt í mótinu. Keppt var bæði í þyngdar- og aldursflokkum í svokölluðu þrílyftu móti: hnéybeygju, bekkpressu og réttstöðu. 14 keppendur frá Massa tóku þátt og urðu 9 þeirra Íslandsmeistarar í sínum flokki ásamt því að setja 68 íslandsmet í heildina.

Hólmgrímur Hólmgrímsson varð Íslandsmeistari í -59kg drengjaflokki og setti hvorki minna en 21 Íslandsmet á mótinu í hnébeygju, bekkpressu, réttstöðu, samanlögðum árangri, bekkpressu einlyftu og réttstöðu einlyftu. Hann lyfti mest 105kg í hnébeygju, 60kg í bekkpressu, 112,5kg í réttstöðu og 277,5kg í samanlögðum árangri. Þess má geta að þetta var í fyrsta sinn sem Hólmgrímur keppir.

Gunnar Ragnarsson keppti í -66kg drengjaflokki en náði því miður ekki klára mótið sökum þriggja ógildra tilrauna í réttstöðu. Gunnar lyfti 180kg í hnébeygju sem er 7,5kg yfir Íslandsmeti en það telst því miður ekki gilt þar sem hann lauk ekki keppni. Hann lyfti svo 105kg í bekkpressu sem er nýtt Íslandsmet og telst gilt í bekkpressu einlyftu.

Andri Fannar Aronsson endaði í öðru sæti í -74kg drengjaflokki en hann hefur að eiga við meiðsli og tók því óvenju lágar þyngdir í hnébeygju og réttstöðu. Andri tók þrennuna 75 / 120 / 75 = 270kg í samanlögðu.

Hulda Ósk Blöndal sneri aftur á keppnispallinn eftir tveggja ára hlé en hún endaði í öðru sæti í +84kg flokki unglinga með þrennuna 105 / 60 / 105 = 270kg í samanlögðu sem er 15kg persónuleg bæting.

Daniel Patrick Riley varð Íslandsmeistari í -74kg flokki unglinga með þrennuna 180 / 117,5 / 185 = 482,5kg í samanlögðu, en það er 32,5kg bæting eigin árangri.

Eggert Gunnarsson keppti í mjög sterkum -120kg flokki unglinga en lenti í því óhappi að fá þrjár ógildar lyftur sökum dýptar er hann reyndi við 225kg í hnébeygju.

Þóra Kristín Hjaltadóttir varð Íslandsmeistari í -84kg flokki kvenna M1 er hún tók þrennuna 130 / 82,5 / 160 = 372,5kg í samanlögðu en það er persónuleg bæting um 7,5kg.

Benedikt Björnsson varð Íslandsmeistari í -93kg flokki karla M1 er hann lyfti 220 / 150 / 250 = 620kg í samanlögðu sem er 5kg bæting á eigin árangri frá því á HM í september.

Skúli Helgason endaði í 4.sæti í -120kg flokki karla M1. Hann fékk allar 9 lyftur gildar og endaði með þrennuna 145 / 115 / 185 = 445kg í samanlögðu.

Kjartan Ingi Jónsson varð Íslandsmeistari í +120kg flokki karla M1 er hann tók þrennuna 40 / 175 / 245 = 460kg í samanlögðu. Bekkpressan og réttstaðan voru einnig ný Íslandsmet í flokknum.

Elsa Pálsdóttir varð Íslandsmeistari í -76kg flokki kvenna M3 og sló Íslandsmet í öllum greinum. Hún endaði með þrennuna 142,5kg / 65,5 / 170 = 378kg í samanlögðu sem er 15,5kg bæting á eigin íslands- og heimsmeti en því miður gildir árangurinn á þessu móti ekki til heimsmets.

Hörður Birkisson varð Íslandsmeistari í -74kg flokki karla M3 er hann bætti íslandsmet í hnébyegju: 165,5kg. Í bekkpressu tók hann 90kg og 190kg í réttstöðu, sem gerir  445,5kg í samanlögðum árangri.

Jens Elís Kristinsson varð Íslandsmeistari í -105kg flokki karla M3 er hann tók þrennuna 170 / 100 / 195 = 465kg í samanlögðu sem er 10kg bæting á eigin árangri.

Stefán Sturla Svavarsson eða afi Spjóti eins og hann er oftast kallaður, snéri aftur á keppnispallinn við mikil fagnaðarlæti. Spjóti kom, sá og sigraði-120kg flokk karla M3. Hann er því Íslandsmeistari og sló hann einnig Íslandsmet í öllum lyftum. Hann endaði með þrennuna 190 / 135 / 187,5 = 512,5kg í samanlögðu árangri.

Veitt voru sérstök verðlaun fyrir stigahæstu keppendur karla og kvenna. Stigahæstu keppendur í aldursflokkum voru:

Telpnaflokkur: Jóhanna Rún Steingrímsdóttir (LFK) 42,05 stig
Unglingaflokkur kvenna: Kristrún Sveinsdóttir (Breiðablik) 77,38 stig
Öldungaflokkur kvenna: Elsa Pálsdóttir (Massi) 75,14 stig
Drengjaflokkur: Stefán Aðalgeir Stefánsson (KFR) 61,38 stig
Unglingaflokkur karla: Gabríel Ómar Hafsteinsson (Breiðablik) 79,64 stig
Öldungaflokkur karla: Benedikt Björnsson (Massi) 81,50 stig

Mótið fór mjög vel fram og fékk Massi hrós frá öðrum félögum fyrir góða umgjörð. Við þökkum öllum þeim sem komu að mótastarfinu með einum eða öðrum hætti, fyrir sitt framlag og óskum keppendum til hamingju með árangurinn.

Heildarúrslit mótsins má finna hér

Upptaka af mótinu má finna hér