Minning: Lára IngimundardóttirPrenta

Körfubolti

Í dag fylgjum við síðasta spölinn henni Láru okkar Ingimundardóttir. Stórt er það skarðið sem skilið er eftir. Þó ekki sé hallað á aðra annars mjög svo góða stuðningsmenn körfuknattleiksdeildar UMFN þá var hún Lára Ingimundardóttir í algerum sérflokki þegar kom að því að starfa fyrir og styðja félagið sitt. Félagið sem hún elskaði og dáði. Elsku Lára, einn okkar allra besti leikmaður sem mætti alltaf til leiks þegar á þurfti. Veikindi voru lítið annað en smá hindrun í því að mæta í Ljónagryfjuna til græja til það sem þurfti og svo að sjálfsögðu að styðja liðið sitt til sigurs.  Þau voru í raun afar fá verkefnin sem að Lára snerti ekki á og meira segja skartaði hún leiksigri í þorrablóts annál okkar Njarðvikinga. Dugnaður hennar náði einnig út fyrir félagið og fékk Körfuknattleikssamband Íslands einnig að njóta krafta hennar og hlýju nærveru.   Ákveðni hennar og dugnaður smitaði út frá sér og án nokkurs vafa getum við kvittað einhverja góða sigra okkar liða að hluta til á Láru.

Lára var hvers manns hugljúfi og aldrei bar hún neikvæð orð á samferðamenn sína heldur gat hún séð það jákvæða í öllu.  Félagsvera var hún mikil og þekkti hún alla sem komu að starfi og leik félagsins. Og það var ekki bara innan UMFN heldur hafa samfélagsmiðlar undanfarna daga sannað það að nærvera hennar í kringum körfuna náði til fjölda leikmanna og þjálfara annara liða sem og dómara.  Lára var aldrei feimin að bera sig á tal við í raun hvern sem er og þá var hún forvitin að vita hvernig viðkomandi héldi að leikurinn færi, nú eða um annan fróðleik um körfuboltann.

Við kveðjum harðan Njarðvíking í dag, líkast til þann allra harðasta með tár á hvarmi. Lára þín verður sárt saknað en minning þín lifir að eilífu í Ljónagryfjunni og í hjörtum okkar allra sem komum að körfuknattleiksdeild UMFN.

Hvíl í friði.