Maciej í Ljónagryfjuna á nýjan leikPrenta

Körfubolti

Maciej Baginski samdi í dag á nýjan leik við uppeldisfélagið sitt Njarðvík eftir eins árs veru hjá Þór Þorlákshöfn. Samningurinn er til tveggja ára. Stjörn KKD UMFN fagnar komu Maciej sem mun án nokkurs vafa láta vel til sín taka á heimavellinum en hann var með 14,9 stig og 4,1 frákast að meðaltali í leik með Þór á síðustu leiktíð.

Friðrik Pétur Ragnarsson formaður KKD UMFN sagði við ráðninguna að Maciej væri mikilvægt púsl í spili Njarðvíkinga. „Við vitum öll hvers hann er megnugur og fögnum því að fá okkar mann aftur heim í Njarðvík. Línur er að skýrast með leikmannahópinn okkar fyrir komandi tímabil en stjórn hefur haft nóg fyrir stafni upp á síðkastið.“

„Ég er mjög ánægður með að vera kominn aftur heim í Njarðvík. Tími minn hjá Þór var lærdómsríkur en Njarðvík er mitt uppeldisfélag og ég vil fyrir alla muni taka þátt í því að færa félagið í fremstu röð á nýjan leik,“ sagði Maciej Baginski við undirritun samninga í dag.

Þegar hefur verið framlengt við Loga Gunnarsson og Vilhjálm Theodór Jónsson og þá mun Daníel Guðni Guðmundsson stýra liðinu sitt annað tímabil.

Mynd/ Maciej Baginski og Friðrik Pétur Ragnarsson formaður KKD UMFN við samningagerðina í dag.