Logi heiðraður með hluta úr GryfjunniPrenta

Körfubolti

Eins og mörgum körfuknattleiksunnendum er ljóst þá er Logi Gunnarsson fyrirliði karlaliðs Njarðvíkur að leika sitt síðasta tímabil.

Að lokinni leiktíð leggur hann keppnisskóna á hilluna góðu eftir langan og farsælan feril. Af þessu tilefni ákváðu Njarðvíkingar að heiðra Loga fyrir þriðju viðureignina gegn Tindastól.

Margir Njarðvíkingar þekkja rimlana gulu í Ljónagryfjunni og eru þeir númeraðir og að sjálfsögðu var rimlastandur númer 14 fyrir valinu. Það var Njarðvíkingurinn Brynjar Þór Guðnason sem skar út í plattann eftirfarandi kveðju til Loga:

„Logi Gunnarsson. Með þökk fyrir þitt framlag til félagsins.
Kveðja, Njarðvíkingar.“

Logi er á 42. aldursári en hann á að baki rúmlega 400 leiki fyrir NjarðvÍK. Um 900 leiki á ferlinum, 26 ár í meistaraflokki og margfaldur meistari með Njarðvík.

Logi lék um áratug í atvinnumennsku í Þýskalandi, Spáni, Finnlandi, Svíþjóð og Frakklandi og lék 147 landsleiki fyrir Íslands hönd.

Það var Ólafur Eyjólfsson formaður UMFN og börn Loga þau Sara, Logi og Harpa sem færðu honum gjöfina frá öllum Njarðvíkingum.

Eins var gaman að heyra viðtökurnar í stúkunni og virðingarvert hve vel stuðningsmenn Tindastóls tóku undir við heiðrunina.

Fyrir fánann og UMFN!  

Myndir/JBÓ