Logi áfram yfirþjálfari yngriflokkaPrenta

Körfubolti

Unglingaráð hefur endurnýjað ráðningarsamning við Loga Gunnarsson yfirþjálfara félagsins. Skrifað var undir 5 ára samning við Loga sem hefur undanfarin 6 ár sinnt farsælu starfi yfirþjálfara í barna- og unglingastarfi körfuknattleiksdeildar UMFN. Það eru spennandi tímar framundan í körfunni í Njarðvík með vinnu við stefnumótun á starfi yngri flokka félagsins með það að markmiði að undirbúa fjölgun iðkenda í körfunni með tilkomu á nýju íþróttahúsi við Stapaskóla, stuðla að aukinni menntun þjálfara, styrktarþjálfun iðkenda og afreksstarfi.

Vinna við gerð á æfingartöflu fyrir tímabilið 2021-2022 er í gangi auk lokavinnu við ráðningar á þjálfurum fyrir tímabilið. Stefnt er að því að 7. flokkur og eldri hefji æfingar 19. ágúst þar sem Íslandsmót þeirra hefst í byrjun september og iðkendur í mb. 5-11 ára hefji æfingar 30. ágúst. Upplýsingar um æfingar, þjálfara, skráningu og æfingargjöld verða settar á heimasíðuna þegar nær dregur.