Líflegt kvöld í vændum í GryfjunniPrenta

Körfubolti

Sextánda umferð Subwaydeildar kvenna fer fram í kvöld þar sem okkar konur í Njarðvík ríða á vaðið kl. 18:15 í Suðurnesjaslag gegn Grindavík. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en það verður mikið við að vera í Gryfjunni í kvöld þegar barist verður um tvö afar dýrmæt stig.

Fjórum stigum munar á Njarðvík og Grindavík um þessar mundir, Njarðvík í 4. sæti með 16 stig en Grindavík í 5. sæti með 12 stig. Aðeins fjögur efstu lið deildarinnar komast áfram í úrslitakeppnina og því myndu tvö stig í kvöld vigta þungt – sjötti maðurinn á áhorfendapöllunum skiptir því höfuðmáli!

Fyrir leik verður 9. flokkur kvenna heiðraður en liðið varð VÍS-bikarmeistari um síðustu helgi og er þetta aðeins í annað sinn í sögu UMFN sem 9. flokkur félagsins verður bikarmeistari – til hamingju stelpur!

Iðkendur í yngri flokkum félagsins munu einnig taka þátt í upphitun fyrir leik með því að slá skjaldborg utan um völlinn svo allir krakkar að mæta í grænu í kvöld og tilbúin til að hvetja Njarðvík áfram til sigurs.

Hlökkum til að taka á móti ykkur í Ljónagryfjunni og unglingaráð deildarinnar mun sjá til þess að það þurfi enginn að missa af kvöldmatnum í kvöld.

Fyrir fánann og UMFN!

#ÁframNjarðvík

Allir leikir kvöldsins í Subwaydeild-kvenna

18:15 Njarðvík – Grindavík
19:15 Breiðablik – Keflavík
19:15 ÍR – Fjölnir
20:15 Haukar – Valur