KSÍ, tillögur um breytingar á mótahaldi samþykktarPrenta

Fótbolti

Stjórn KSÍ fundaði í dag, fimmtudaginn 19. mars, og fjallaði m.a. um tillögur mótanefndar um breytingar á mótahaldi í ljósi þeirrar stöðu sem komin er upp vegna þess heimsfaraldurs sem nú geisar.

Stjórnin samþykkti að keppni í Lengjubikarnum sé lokið og að ekki verði krýndir meistarar 2020. Þá var samþykkt að Meistarakeppni KSÍ verði frestað og að keppnin í ár verði mögulega felld niður.

Varðandi Íslandsmót 2020 og bikarkeppni samþykkti stjórn KSÍ að keppni í þessum mótum hefjist um miðjan maí, að því gefnu að samkomubanni ljúki um miðjan apríl. Staðan verður endurmetin í apríl þegar frekari upplýsingar liggja fyrir um framhaldið og ef til þess kemur að samkomubann framlengist. Þannig er gert ráð fyrir að hæfilegur tími líði frá lokum samkomubanns þar til keppni getur hafist í öllum mótum. Ný niðurröðun í hlutaðeigandi mótum verður gefin út eins fljótt og við verður komið.