Jafntefli gegn EyjamönnumPrenta

Fótbolti

Úrvalsdeildarlið ÍBV mætti í Reykjaneshöllina í dag og heimsótti Njarðvík, en leikurinn var í Lengjubikarnum. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli í hörku leik.

Eyjamenn byrjuðu mun betur og eftir um stundarfjórðung komu tvö mörk með þriggja mínútna  millibili. Sumir vildu meina að fyrra markið hefði ekki á að standa, því sóknarmaður ÍBV hefði handleikið knöttinn í aðdraganda marksins. Vestmannaeyingar voru svo nærri því búnir að gera þriðja markið en boltinn skall í slá heimamanna. Það var svo Kenneth Hogg sem náði að minnka muninn á síðustu andartökum fyrri hálfleiks og staðan í hálfleik því 1-2, sem var ekkert endilega sanngjarnt.

Njarðvíkurpiltum óx ásmegin í síðari hálfleik og gerðu oft harða hríð að marki gestanna og Bergþór Ingi Smárason var nærri því að gera glæsimark, er hörku skot hans utan vítateigs hafnaði í samskeytunum. Er tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var dæmd vítaspyrna á gestina, eftir að Kenneth var brugðið innan vítateigs. Andri Fannar Freysson fór á punktinn og skoraði af öryggi. Fleiri urðu mörkin ekki þrátt fyrir harða atlögu beggja liða að marki andstæðingana og lokatölur því 2-2.

Nokkur harka var undir lok leiksins og fóru tvö gul spjöld á loft. Heimamenn vildu meina að Arnór Björnsson hefði átt að fá vítaspyrnu undir lokin, eftir að hafa stungið sér í gegnum vörnina og verið tæklaður í skotinu.

Hlynur Örn Hlöðversson markvöruður var að leika sinn fyrsta leik með Njarðvík. Næsti leikur okkar og sá síðasti í Lengjubikarnum er gegn Fram á föstudaginn kemur í Egilshöll.

Leikskýrslan Njarðvík – ÍBV

Mynd/ Hlynur Örn, Andri Fannar, Kenny og Elvar Óli sem menn héldu að hafi verið að spila sinn fysta meistaraflokksleik en var ekki rétt.