Haukur Helgi: Fjölskyldan á undan körfuboltaPrenta

Körfubolti

Eins og greint var frá fyrr í dag þá hefur Haukur Helgi Pálsson beðist lausnar undan síðasta ári af samningi sínum við Njarðvík. Orðið var fyrir þessari beiðni Hauks og hleraði UMFN.is kappann í kjölfarið. 

“Þetta er auðvitað ákvörðun sem er ekki tekin í flýti og var mjög erfið að taka. Stóra ástæðan er sú að ég er á ákveðnum krossgötum í lífi mínu þar sem ég er komin með fjölskyldu. Þetta er ekki körfuboltaleg ákvörðun heldur ákvörðun sem ég tek fyrir fjölskyldu mína fyrst og fremst.” sagði Haukur Helgi. 

“Ég og kona mín erum bæði af Reykjavíkursvæðinu og allt okkar nánasta fólk og fjölskylda eru þar. Við ákváðum að prufa að búa hér á svæðinu og hefur liðið gríðarlega vel. En á endanum þá viljum við vera nálægt okkar stórfjölskyldu og það á endanum ræður þessari ákvörðun minni.” bætti Haukur við. 

Haukur telur sig að sjálfsögðu vera með grænt blóð eftir þau þrjú tímabil sem hann hefur skilað í Njarðvík “Tíminn hér í Njarðvík hefur verið skemmtilegur en því miður hafa meiðsli litað þessi  ár mín hér. Ég set sjálfur á mig ákveðna pressu að skila af mér árangri og það hefur verið mér gríðarlega erfitt í ljósi meiðsla minna og hver hægur batinn hefur verið. En ég þakka Njarðvík fyrir gríðarlega góðan tíma og stuðningsmenn liðsins eru náttúrulega á heimsmælikvarða. Takk Njarðvík og takk Ljónagryfja.”