Haukar of stór biti í kvöldPrenta

Körfubolti

Njarðvík tók á móti Haukum í æfingaleik liðanna í Njarðtaksgryfjunni í kvöld. Hafnfirðingar voru við stýrið allan tímann og uppskáru öruggan sigur 54-75.

Haukar mættu þéttar til leiks og Njarðvík gekk illa að finna körfuna. Vilborg var mikið til með boltann í höndunum fyrir Njarðvíkinga en tókst ekki að kveikja líf í sóknarleik liðsins. Hafnfirðingar leiddu 11-21 eftir fyrsta leikhluta með dobíu af sóknarfráköstum uppi í erminni og fína nýtingu utan við þriggja stiga línuna.

Í öðrum leikhluta voru mun meiri töggur í heimakonum og eftir fyrstu sjö mínútur annars leikhluta var staðan 20-30 Hauka í vil en Hafnfirðingar lokuðu fyrri hálfleik með 3-10 dembu og leiddu því 23-40 í hálfleik. Haukar sinntu sinni varnarvinnu vel en Njarðvíkingar voru heilt yfir fremur hugmyndasnauðir og mistækir í sínum aðgerðum.

Síðari háflleikur bauð upp á nokkrar flottar rispur af hálfu Njarðvíkinga en Haukar létu ekki ná sér, Njarðvík minnkaði muninn í 12 stig þegar skammt var til leiksloka en Haukar áttu lokaorðið og unnu 54-75.

Í óspurðum fréttum:

Í kvöld mættust bræðurnir og þjálfararnir Bjarni og Lárus Magnússynir. Bjarni á mála hjá Haukum og Lárus eins og kunnugt er aðstoðarþjálfari Rúnars hjá Njarðvíkurliðinu.

Erna Freydís Traustadóttir er hætt körfuknattleik en lét sig þó ekki vanta í stúkuna til að styðja við bakið á fyrrum liðsfélögum sínum í Njarðvík. Þá mátti sjá fleiri fyrrum leikmenn kvennaliðsins á pöllunum en Aníta Kristmundsdóttir Carter var einnig mætt á völlinn.

Eva María Lúðvíksdóttir og Jóhanna Lilja Pálsdóttir voru í borgaralegum klæðum í kvöld en vonandi fáum við að sjá þær í búning fyrr en síðar. Þá var Lovísa Henningsdóttir einnig borgaralega klædd í liði Hauka.

Ingvar Þór Guðjónsson annar tveggja þjálfara Hauka sem var á mála hjá Njarðvík síðustu tvö tímabil var mættur aftur í Njarðtaksgryfjuna eftir að hann steig um borð í Haukaskútuna á nýjan leik síðastliðið sumar.

Svipmyndir úr leiknum

Mynd með frétt/ JB: Krista Gló Magnúsdóttir átti flotta innkomu í Njarðvíkurliðið í kvöld og verður forvitnilegt að sjá hvernig hún muni láta til sín taka í 1. deildinni í vetur.