Grannaglíma í Keflavík í kvöld!Prenta

Körfubolti

Skjálftavaktin heldur áfram en núna á parketinu því í kvöld örkum við Njarðvíkingar yfir línuna og mætum Keflavík í Blue-höllinni. Leikur kvöldsins er síðasti leikurinn í 15. umferð Domino´s-deidlar karla og hefst kl. 20.15.

Við stýrum ekkert fram hjá því að takturinn hefur ekki verið sem skyldi upp á síðkastið hjá okkar mönnum og heil 14 stig skilja liðin að í deildinni.

Leiðin í ljósið er ekkert annað en sigur gegn toppliðinu í kvöld og þá er ekki úr vegi að mæta og styðja vel við bakið á klúbbnum sínum. Okkar menn þurfa að raka inn stigum ætli þeir sér að komast í úrslitakeppnina og þá skiptir stuðningurinn í stúkunni höfuðmáli.

Liðin hafa í gegnum tíðina mæst á afar misjöfnum stöðum í töflunni en undanfarið hafa grannar okkar haft betur í þessum rjóma af íslenskum körfuknattleik. Það er kominn tími á að rétta okkar hlut í þessari glímu, allir upp á dekk!

#ÁframNjarðvík