Framlengjum starfsárið og frítt að æfa út tímabilið fyrir nýja iðkendurPrenta

Fótbolti

Þá er komið að lokasprettinum á viðburðaríku starfsári yngri flokka. Nú þegar skólarnir fara að hefjast breytum við æfingatöflunni fyrir síðustu vikurnar svo sem flestir komast örugglega á æfingu. Uppfærða æfingatöflu má sjá hér fyrir neðan og einnig verður hún birt undir fótbolti og æfingatafla yngri flokka á heimasíðu umfn.is. Uppfærð haust æfingatafla tekur gildi frá og með mánudeginum 17. ágúst.

Ykkur til upplýsingar þá hefur barna og unglingráð lagt til að framlengja starfsárinu til og með 10. september til að koma á móts við iðkendur og foreldra vegna covid-19 heimsfaraldursins sem varð til þess að ekki var hægt að halda úti hefðbundnum æfingum í vor. Við vonum að þetta falli vel í kramið. Það verður því æft inn í haustið á grasinu áður en við tökum stutt haustfrí en nýtt starfsár hefst svo aftur mánudaginn 28. september. Þegar þetta er skrifað eru því fjórar vikur eftir af starfsárinu og því nóg af fótbolta framundan þó það sé farið að styttast í annan endann á sumrinu. Það hefur rignt hressilega á okkur síðustu vikur og vilja þjálfarar hrósa iðkendum fyrir að láta það ekki stoppa sig en dag eftir dag mæta okkar iðkendur á æfingu með bros á vör og taka vel á því.

Félagið okkar er að stækka en það hefur verið mikil fjölgun iðkenda í yngri flokkum félagsins undanfarin tvö til þrjú ár. Það hefur verið mikill metnaður lagður í starfið og að halda áfram að bæta þjónustu við iðkendur og erum við sem félag hvergi nærri hætt. Ætlum að gera enn betur á næsta starfsári með tilheyrandi fjölgun iðkenda. Meira um það síðar. Núna viljum við aftur á móti bjóða öllum, bæði strákum og stelpum sem ekki eru að æfa en hafa áhuga að mæta og æfa fótbolta frítt út sumarið. Við hvetjum alla okkar iðkendur að bjóða vinum og vinkonum sem ekki æfa með sér á æfingu og eru allir velkomnir. Fyrir fánann og UMFN. Áfram Njarðvík!