Erna Freydís: Höldum okkur á jörðinni og sýnum hvað í okkur býrPrenta

Körfubolti

Tímabilið hefst hjá kvennaliði Njarðvíkur í dag þegar liðið mætir Hamri í Hveragerði í 1. deild kvenna. Leikurinn hefst kl. 15:00 og er opnunarleikurinn í deildarkeppninni þetta árið. Við hvetjum alla Njarðvíkinga til að fjölmenna í Blómabæinn Hveragerði og styðja við bakið á Ljónynjunum.

Hvernig fannst þér undirbúningstímabilið hjá liðinu? Bara mjög flott undirbúningstímabil. Erum búnar að ná mörgum góðum æfingum og ekki síður í æfingaferðinni okkar sem gerði okkur kleyft að ná hópnum vel saman og fengum að auki tvo æfingaleiki sem var flott reynsla og góður undirbúningur fyrir tímabilið sem er að skella á.

Hvernig líst þér á þær breytingar sem hafa orðið á leikmannahópnum okkar? Það hafa ekki orðið miklar breytingar en höfum fengið inn stelpur úr yngri flokkunum sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokk. Lýst mjög vel á það enda finnst mér þær stipla sig vel inn.

Njarðvík var spáð sigri í deildinni, hvernig tók liðið þessari spá? Ekki annað hægt en að segja að við séum ánægðar með hana, gefur okkur auka hvatningu. Ef við höldum okkur á jörðinni og einbeitum okkur að okkar leik þá munum við sýna hvað í okkur býr og ná langt.

Fyrsti leikur í dag og við byrjum gegn Hamri, hvernig líst þér á þá rimmu? Mér líst vel á þessa rimmu, förum fullum huga í þennan leik eins og alla aðra leiki og byrjum tímabilið með „stæl“

Tímabilið í heild, hvaða skoðun hefur þú á komandi vertíð? Er bara ótrúlega spennt fyrir tímabilinu og held að allar séu sammála mér í því. Höfum náð að koma okkur vel saman og ætlum okkur að sýna stöðugleika í vetur og ég get lofað stuðningsmönnum því að það verði stemmning í liðinu í leikjum í vetur. Hvet alla til að koma á leiki og styðja okkur ljónynjurnar áfram því í ár ætlum við okkur alla leið og með ykkar hjálparhönd náum við enn lengra.