Elvar Már: Aðstæður flottar hjá BorasPrenta

Körfubolti

Elvar Már Friðriksson leikur í sænsku úrvalsdeildinni á komandi leiktíð en hann hefur síðustu daga óðar verið að koma sér fyrir ytra. Elvar segir menninguna ekki óvsipaða og hér heima á Íslandi.

„Fyrstu dagarnir hérna í Svíþjóð hafa verið góðir, ég er að koma mér hægt og rólega fyrir á nýjum stað. Menningin er ekkert ósvipuð og er á Íslandi, það er tekið vel á móti manni og auðvelt að komast inn í hlutina. Aðstæðurnar eru flottar í alla staði og klúbburinn sömuleiðis svo ég er spenntur fyrir tímabilinu,“ sagði Elvar sem er einnig farinn að gera sig líklegan á sænska tungu.

„Ég hef aðeins lært sænsku á netinu fyrstu vikuna en ég vonast til að ná einhverjum tökum á henni þegar líður á þar sem hún er alls ekkert ósvipuð íslenskunni.“

Aðspurður um uppeldisklúbbinn Njarðvík sér Elvar þá Jón Arnór og Kristinn í stærri hlutvekrum í ár heldur en í fyrra:

„Njarðvík er með sama kjarna og í fyrra og ég tel það eigi klárlega eftir að hjálpa liðinu. Jón Arnór og Kristinn munu fara í stærri hlutverk og ég veit að menn eru staðráðnir í að bæta upp fyrir vonbrigðin í fyrra. Ég hlakka til að fylgjast með Njarðvík í vetur en ég spái því að þeir verði í efri hlutanum og verði í baráttu um titla.“

Elvar og Boras verða ekki aðeins í baráttunni í sænsku úrvalsdeildinni því 2. og 9. október mætir liðið Karsiyaka frá Tyrklandi í undankeppni FIBA Europa Cup. Sigurlið þessara leikja sem eru heima og að heiman kemst í riðlakeppni Evrópubikars FIBA með Spirou Basket og Basic-Fit Brussells og tapliðinu frá viðureign Benfica og Groningen í Hollandi.