Áskorun um endurskoðun úthlutunar og aðgerða Afrekssjóðs ÍSÍPrenta

Körfubolti

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur lýsir áhyggjum sínum og vonbrigðum vegna úthlutunar og aðgerða Afrekssjóðs ÍSÍ við færslu KKÍ niður í B-hóp afrekssambanda og lækkunar á úthlutunarfjárhæð vegna þessa.

Síðastliðinn áratug hefur blómaskeið staðið yfir í íslenskum körfuknattleik þar sem A-landslið karla komst í tvígang í lokakeppni Evrópumeistaramótsins og nú þegar þetta er ritað berst Ísland fyrir möguleikum sínum á því að komast á Heimsmeistaramótið sem og sæti á Ólympíuleikunum 2024 í París.

Það er ljóst frá okkar bæjardyrum að Afrekssjóður hefur falið sig á bak við rýrt og óvandað regluverk sem bitnar nú harkalega og með ófyrirséðum afleiðingum á íslenskum körfuknattleik.

Við hjá Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur höfum um árabil átt leikmenn í íslenska landsliðinu, atvinnumenn og leikmenn á háskólasamningum í Bandaríkjunum. Við höfum byggt upp öfluga körfuknattleiksdeild og hörmum þá aðför sem íþróttaforystan á Íslandi stundar gagnvart körfuknattleik.

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur skorar á Afrekssjóð og ÍSÍ að endurskoða og leiðrétta þessi mistök sem gerð voru við úthlutun þessa árs. Þessi aðgerð gerir raunhæfa tilraun Íslands til að komast í fyrsta sinn á HM að engu og veldur óþarfa óvissu til framtíðar. Við óskum þess einnig að íþróttaforystan í landinu taki virkan þátt í að hafa veg íþrótta sem mestan en ekki refsa þeim að óþörfu og fela sig svo á bak við óvandað regluverk sem virðist ekki hafa nokkurn skilning á stærð og umfangi íþróttagreina á heimsvísu.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur


Mynd með frétt/ af Facebook-síðu KKÍ

Tengt efni:

RÚV: Segir úthlutun ÍSÍ móðgun við körfuboltann og óttast framtíð landsliða