Ásgarðurinn er staðurinn í kvöld.Prenta

Körfubolti

Kæru Njarðvíkingar það er komið að leik númer 4 í þessu risavaxna einvígi milli okkar manna og Stjörnunnar. Leikurinn fer fram annað kvöld klukkan 19:15 á heimavelli Stjörnunnar í Ásgarði í Garðabæ. Njarðvík leiðir einvígið eins og flestir vita 2-1 eftir frábærann sigur í Ljónagryfjunni í síðasta leik. Serían hefur verið frábær skemmtun og leikirnir verið gríðarlega jafnir. Hvorugt lið hefur náð meir en 9 stiga forskoti í öllum þremur leikjunum til þessa og framlengja þurfti fyrsta leikinn þar sem Njarðvík endaði sem sigurvegari. Í leik númer 2 var mikið jafnræði með liðunum og fékk Njarðvík séns til að jafna leikinn og setja hann í framlengingu en síðasta sóknin hjá okkar mönnum rann út í sandinn og því unnu Stjörnumenn með þremur stigum. Í síðasta leik náði Njarðvík forskotinu snemma en náði aldrei að stinga andstæðingana af og náði Stjarnan að komast yfir um miðjann fjórða leikhluta en Njarðvík kom til baka og kláraði leikinn með flottum baráttu sigri en lokatölur í leiknum voru 92-86. Þessi lið eru gjörsamlega járn í járn og getur enginn spáð fyrir hvað gerist í næsta leik. Barátta, spenna og mikil harka hafa einkennt þessa seríu og eru ekki miklar líkur á að það breytist eitthvað annað kvöld. Það sem kannski Njarðvík hefur fram yfir Stjörnuna að færa er frábær stuðningur úr stúkunni. Stuðningsmenn okkar hafa gjörsamlega farið hamförum en nú í fjórða leik liðanna þegar okkar menn hafa gullið tækifæri á að loka seríunni reynir fyrst á!!! Stjörnumenn eru með bakið upp við vegginn fræga og þeir mæta dýrvitlausir til leiks annað kvöld. Þeir vita vel að við höfum sigrað stúkuna í öllum þessum leikjum og þeir vilja að það breytist og hafa því haft samband við hina landsfrægu stuðningsmannasveit þeirra, sjálfa Silfurskeiðina en hún hefur slegið í gegn á fótboltaleikjum hjá Stjörnunni. Við munum öll sem eitt öskra úr okkur lungun á leiknum annað kvöld og styðja strákana til sigurs og klára þessa seríu í eitt skipti fyrir öll!! Eru ekki allir sannir Njarðvíkingar tilbúnir í þennann rosalega leik sem framundan er annað kvöld??? Mætum í grænu og látum vel í okkur heyra þegar liðið stígur á völlinn!! Fyrir fánann og UMFN, ÁFRAM NJARÐVÍK!!!