Á toppnum yfir hátíðarnarPrenta

Körfubolti

Jólafrí er skollið á í Domino´s-deild karla og sitja Ljónin í Njarðvík á toppi deildarinnar ásamt Tindastól. Bæði lið með 20 stig í jólafríinu og hafa unnið 10 leiki en tapað einum. Tindastóll lá gegn KR og Njarðvík tapaði sínum leik gegn Tindastól sem mætir í Ljónagryfjuna í janúarlok.

Tvö góð stig komu á land í Fjósinu í Borgarnesi í gærkvöldi með 82-89 útisigri þar sem bæði Logi Gunnarsson og Maciej Baginski voru fjarri góðu gamni sökum veikinda. Okkar menn voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik og náðu upp góðu forskoti en 21-10 í þriðja leikhluta fyrir Skallagrím brúaði bilið en Njarðvíkingar voru ávalt við stýrið og kláruðu verkefnið 82-89 þar sem Elvar Már var með 27 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar og Jeb Ivey bætti við 21 stigi og 9 stoðsendingum.

Ljónin fara á góðri siglingu inn í jólafrí sem eina lið deildarinnar með 7 sigra í röð í deildinni en Stólarnir eru ekki langt undan og hafa unnið síðustu sex deildarleiki sína í röð.

Fjörið hefst svo snemma aftur á nýja árinu því 6. janúar verður haldið yfir lækinn til Keflavíkur þegar tólfta umferð deildarinnar og fyrsta umferð síðari hluta mótsins hefst. Það er viðeigandi að hefja deildarkeppnina á nýjan leik á þrettándanum með flugeldasýningu.

Mynd/ Ljónin sigurreif eftir að hafa landað tveimur góðum stigum í Borgarnesi í gær.